Allir leikir úrslitaleikir (myndskeið)

Nemanja Matic, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, var í áhugaverðu viðtali við Bjarna Þór Viðarsson, lýsanda hjá Síminn Sport, í vikunni. Þar ræddi Matic meðal annars tímabil United en hann hefur verið í stóru hlutverki með liðinu upp á síðkastið og byrjað tólf leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Matic var í byrjunarliði United sem vann öruggan 3:0-útisigur gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í gær en liðið hefur nú unnið þrjá leiki í röð í öllum keppnum eftir að keppni hófst á nýjan leik eftir rúmlega þriggja mánaða hlé vegna kórónuveirufaraldursins sem hefur herjað á Evrópu.

„Öllum leikmönnum liðsins líður vel, bæði líkamlega og andlega,“ sagði Matic. „Við erum á góðum stað sem lið núna enda erum við að spila vel og vinna leiki. Vonandi getum við haldið áfram á sömu braut og persónulega er ég að komast í mitt besta stand eftir langt hlé vegna kórónuveirufaraldursins.

Við erum ennþá í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti og við viljum enda í efstu fjórum sætunum. Allir leikir United sem eftir eru af tímabilinu eru úrslitaleikir því það er gríðarlega mikið undir í þeim öllum. Við viljum líka vinna ensku bikarkeppnina og Evrópudeildina þannig að það er mikið undir í þeim leikjum sem eftir eru,“ bætti Matic við.

Allir leikir ensku úrvalsdeildarinnar eru í beinni útsendingu á Síminn Sport.

Nemanja Matic á fullri ferð í leiknum gegn Brighton í …
Nemanja Matic á fullri ferð í leiknum gegn Brighton í gær. AFP
mbl.is