Magnaður sigur West Ham á Chelsea

Tomás Soucek skorar fyrir West Ham gegn Chelsea í kvöld …
Tomás Soucek skorar fyrir West Ham gegn Chelsea í kvöld en markið var dæmt af. AFP

West Ham gerði sér lítið fyrir í kvöld og sigraði Chelsea 3:2 í bráðfjörugum leik á London Stadium í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Chelsea nýtti sér þar með ekki gullið tækifæri til að komast uppfyrir Leicester og í þriðja sæti deildarinnar. Chelsea er áfram með 54 stig, einu stigi á eftir Leicester sem tapaði fyrir Everton fyrr í dag.

West Ham fékk dýrmæt stig í fallbaráttunni og er nú með 30 stig en Watford er með 28 stig, Aston Villa og Bournemouth 27 og Norwich 21 stig í neðstu sætunum.

West Ham virtist hafa náð forystunni á 34. mínútu með marki frá  Tomás Soucek en eftir nokkurt hik var markið dæmt af.

Í staðinn skoraði Willian fyrir Chelsea á 42. mínútu úr vítaspyrnu og lið hans því komið með 1:0 forystu.

En forystan entist ekki lengi því Soucek skoraði aftur, og nú löglegt mark, þegar hann skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiksins, 1:1.

West Ham fylgdi þessu eftir því á 51. mínútu skoraði Michail Antonio eftir sendingu frá Jarrod Bowen og staðan orðin 2:1.

Willian hafði ekki sagt sitt síðasta orð því hann jafnaði metin í 2:2 á 72. mínútu með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu.

En á 88. mínútu átti West Ham flotta skyndisókn, Antonio stakk boltanum innfyrir vörnina á varamanninn Andriy Yarmolenko sem skoraði, 3:2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert