Ótrúlegt afrek Klopp og Liverpool (myndskeið)

Manchester City tekur á móti Liverpool í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á morgun klukkan 19:15 á Etihad-vellinum í Manchester. Liverpool hefur nú þegar tryggt sér Englandsmeistaratitilinn eftir að City mistókst að leggja Chelsea að velli á Stamford Bridge í London 25. júní síðastliðinn.

Steve McManaman er uppalinn hjá Liverpool en hann lék með liðinu frá 1990 til ársins 1999 áður en hann gekk til liðs við Real Madrid á Spáni. Þar lék hann í fjögur ár þangað til hann snéri aftur til Englands og lék í tvö ár með Manchester City, áður en hann lagði skóna á hilluna árið 2005 en McManaman starfar í dag sem sparkspekingur.

„Þetta var magnað afrek, sérstaklega ef horft er til síðasta tímabils þar sem Liverpool  nartaði í hælana á City allt til enda,“ sagði Steve McManaman. „Afrekið er líka afar sérstakt í ljósi þess að Liverpool keypti enga stóra leikmenn síðasta sumar. Þeir mættu þannig séð með sama leikmannahóp til leiks, tvö tímabil í röð, og bókstalega rústuðu deildinni í ár.

Maður sá það strax í fyrsta leik í hvað stemdi hjá liðinu þegar að þeir fóru illa með Norwich. Þeir hafa svo bætt sig hægt og rólega í hverjum leiknum á fætur öðru. Bakverðir liðsins, sem eru gríðarlega mikilvægir í allri taktík, eru árinu eldri og áhrif þeirra skipti sköpum í ár. Þá er erfitt að horfa fram hjá öðrum leikmönnum liðsins sem voru einfaldlega í öðrum gæðaflokki í ár,“ sagði McManaman meðal annars.

Leikur Manchester City og Liverpool hefst á morgun klukkan 19:15 verður í beinni útsendingu á Símanum Sport.

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, ásamt knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp.
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, ásamt knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert