Sá versti án bolta

Mesut Özil hefur ekki átt fast sæti í liði Arsenal …
Mesut Özil hefur ekki átt fast sæti í liði Arsenal undanfarin tvö tímabil. AFP

Paul Merson, fyrrverandi leikmaður Arsenal og sparkspekingur hjá Sky Sports, fer ekki fögrum orðum um Mesut Özil, sóknarmann liðsins, í nýjasta pistli sínum á heimasíðu Sky Sports. Özil hefur verið mikið gagnrýndur undanfarin ár en hann gekk til liðs við Arsenal frá Real Madrid árið 2013 fyrir 42,5 milljónir punda.

Özil, sem er orðinn 31 árs gamall, er launahæsti leikmaður liðsins í dag og þénar í kringum 350.000 pund á viku en það samsvarar um 60 milljónum króna á viku. Eftir að Özil skrifaði undir nýjan samning við Arsenal í janúar 2018 hefur hann lítið sem ekkert getað inn á vellinum og þá hafa tækifærin einnig verið af skornum skammti.

„Özil er þannig leikmaður að hann verður einfaldlega að vera í liði sem er með boltann 70% af leiknum,“ skrifaði Merson í pistli sínum um leikmanninn. „Hann er ekki leikmaður sem vinnur boltann fyrir þig, eltir andstæðinginn djúpt inn á eigin vallarhelming og það er ástæðan fyrir því að hann hentar ekki fyrir Arsenal eins og liðið spilar í dag.

Staðreyndin er sú að Özil er versti leikmaður í heimi þegar liðið þitt er ekki með boltann. Ef hægt er að finna leikmann sem er verri en hann án bolta þá má endilega senda mér skilaboð. Hann er gjörsamlega áhugalaus þegar liðið hans er ekki með boltann en hann nennir vissulega að hreyfa sig þegar að Arsenal er með boltann,“ bætti Merson við.

mbl.is