Dómarinn í felum á einhverri skrifstofu

José Mourinho á hliðarlínunni í kvöld.
José Mourinho á hliðarlínunni í kvöld. AFP

„Ég má ekki segja það sem mér finnst því þá lendi ég í vandræðum. Ég færi í bann og ég vil ekki fara í bann,“ sagði pirraður José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, í viðtali við Sky eftir 1:3-tap á útivelli gegn Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. 

Mourinho var allt annað en sáttur við mark sem dæmt var af Harry Kane einni mínútu eftir að Sheffield United komst í 1:0. Var dæmd hendi á Lucas Moura, þrátt fyrir að brotið hafi verið á honum. 

„Dómarinn var ekki á vellinum, hann var í felum á einhverri skrifstofu. Hann sem er á vellinum er ekki dómarinn og tekur ekki ákvarðanir. Ég tala ekki við hann. Þetta er ekki eitthvað sem mér finnst, þetta eru staðreyndir. Dómarinn á vellinum er ekki dómarinn,“ sagði Portúgalinn pirraður og hélt aðeins áfram. 

„Ég vil ekki tala um Michael Oliver og ég vil vera á bekknum í næsta leik, svo við skulum tala um eitthvað annað,“ sagði Mourinho. 

mbl.is