Hrósar fyrirliðanum í hástert

Trent Alexander-Arnold hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn.
Trent Alexander-Arnold hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn. AFP

Trent Alexander-Arnold, bakvörður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, hrósaði Jordan Henderson, fyrirliði liðsins, í hástert í samtali við Red Bull herferðina. Alexander-Arnold er einungis 21 árs gamall en hann hefur stimplað sig inn sem einn af bestu hægri bakvörðum heims í dag eftir að hafa brotið sér leið inn í aðallið Liverpool á síðustu leiktíð.

Liverpool vann sinn fyrsta Englandsmeistaratitil í þrjátíu ár í síðustu viku þegar Manchester City mistókst að leggja Chelsea að velli á Stamford Bridge í London. Liverpool er því Englandsmeistari þegar sjö umferðir eru eftir af tímabilinu en liðið hefur verið óstöðvandi á tímabilinu.

„Hendo hefur átt stóran þátt í mínum uppgangi, svo einfalt er það,“ sagði Alexander-Arnold. „Ég átti ekki marga góða vini í hópnum þar sem ég var vanur að láta lítið fyrir mér fara. Ég hef alltaf verið frekar hljóðlátur en hann hjálpaði mér að komast inn í hópinn og lét mér líða vel í kringum þessi stóru nöfn sem spila með félaginu.

Hann hjálpaði mér líka mikið á vellinum og hrósaði mér sama hvað. Ég fékk að gera mín mistök og mér leið aldrei eins og ég byggi ekki yfir sömu hæfileikum og aðrir leikmenn liðsins. Ég hætti að of hugsa hlutina og hræddist sem dæmi ekki að fá boltann. Ég þorði að taka áhættu og varð betri leikmaður fyrir vikið,“ bætti Alexander-Arnold við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert