Mónakó á eftir leikmanni Tottenham

Serge Aurier gæti yfirgefið Tottenham í sumar.
Serge Aurier gæti yfirgefið Tottenham í sumar. AFP

Franska knattspyrnufélagið Mónakó hefur mikinn áhuga á Serge Aurier, leikmanni Tottenham. Aurier var nálægt því að yfirgefa Tottenham síðasta sumar en hann spilaði lítið í upphafi leiktíðar undir stjórn Mauricio Pochettino.

Aurier hefur fengið stærra hlutverk síðan José Mourinho tók við, en bakvörðurinn hefur verið mistækur síðan hann kom til Tottenham frá PSG árið 2017 og gæti félagið verið reiðubúið að leyfa honum að róa á önnur mið.

Þá hefur enska félagið verið ósátt með hegðun Aurier utan vallar, þar sem hann var í þrígang gómaður við að brjóta lög um útgöngubann á meðan kórónuveirufaraldurinn herjaði á Bretlandseyjar. 

Aurier kom til Tottenham árið 2017 og á tvö ár eftir af samningi sínum við enska félagið. Hefur bakvörðurinn leikið 76 leiki með Tottenham í öllum keppnum og skorað sex mörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert