Versta ákvörðun sem ég hef séð

Atvikið umtalaða.
Atvikið umtalaða. AFP

Jamie Redknapp, fyrrverandi leikmaður Tottenham og Liverpool, var allt annað en sáttur við mark sem dæmt var af Harry Kane í leik Tottenham og Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. 

Sander Berge kom Sheffield United yfir á 31. mínútu og Kane svaraði með marki strax í næstu sókn. Markið var hins vegar dæmt af, þar sem Lucas Moura fékk boltann í höndina skömmu áður. 

„Þetta er ein versta ákvörðun sem ég hef séð síðan VAR kom inn í enska boltann. Ég skil að þetta er í lögunum en við verðum að nota almenna skynsemi. Það var brotið á honum og hann datt á boltann á meðan hann varði sig. 

Þetta var augljóst brot og boltinn skaust í höndina á honum. Þetta var slys og við verðum að nota almenna skynsemi. Ég skil að þetta er erfitt fyrir dómarann en þetta var skelfileg ákvörðun,“ sagði Redknapp. 

mbl.is