Sagður hafa gert fimm ára samning við United

Jadon Sancho er einn eftirsóttasti leikmaður Evrópu.
Jadon Sancho er einn eftirsóttasti leikmaður Evrópu. AFP

Enski landsliðsmaðurinn Jadon Sancho er einn eftirsóttasti leikmaður Evrópu en hann hefur verið orðaður við hin ýmsu stórlið eftir að  hafa slegið í gegn með Borssia Dortmund í Þýskalandi. 

Ian McGarry, sérfræðingur um félagsskipti á Englandi, segir að Sancho hafi þegar samþykkt fimm ára samningstilboð Manchester United. Yrði það afar sterkt fyrir United að landa Sancho, en hann hefur skorað 20 mörk og lagt upp 20 til viðbótar á tímabilinu. 

„Hann hefur samþykkt að gera fimm ára samning við Manchester United. Fyrst um sinn fær hann 140 þúsund pund í vikulaun en þau hækka upp í 200 þúsund pund,“ sagði McGarry í Transfer Window-hlaðvarpinu. 

Manchester United og Dortmund eiga enn eftir að semja um kaupverð á Sancho en þýska félagið vill 100 milljónir punda fyrir leikmanninn, en United er einungis reiðubúið að greiða 50 milljónir. 

mbl.is