Samkomulag við Liverpool í höfn?

Thiago Alcantara hefur byrjað 20 leiki í þýsku 1. deildinni …
Thiago Alcantara hefur byrjað 20 leiki í þýsku 1. deildinni á tímabilinu. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Thiago Alcantara er nálægt því að ganga til liðs við Liverpool en það er spænski fjölmiðillinn Sport sem greinir frá þessu. Thiago er orðinn 29 ára gamall en hann hefur verið orðaður við Liverpool að undanförnu. Miðjumaðurinn er samningsbundinn Bayern München til sumarsins 2021 en hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við félagið.

Sport greinir frá því að Liverpool sé tilbúið að borga í kringum 30 milljónir punda fyrir miðjumanninn en Liverpool ætlar sér að dreifa  greiðslunni yfir næstu þrjú árin samkvæmt fréttum frá Spáni. Thiago er uppalinn hjá Barcelona á Spáni en Pep Guardiola fékk miðjumanninn með sér til Þýskalands árið 2013.

Hann hefur byrjað tuttugu leiki í þýsku 1. deildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað þrjú mörk en hann hefur verið fastamaður í landsliði Spánverja frá árinu 2011 þar sem hann hefur spilað 37 leiki og skorað í þeim tvö mörk. 

mbl.is