Átta mörk frá United og Leicester

Mason Greenwood fagnað eftir að hann jafnaði fyrir Manchester United.
Mason Greenwood fagnað eftir að hann jafnaði fyrir Manchester United. AFP

Leicester og Manchester United unnu mikilvæga heimasigra í dag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en þau eru í afar harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu.

Leicester sigraði Crystal Palace 3:0 á King Power og Manchester United vann Bournemouth 5:2 á Old Trafford. Leicester er þá með 58 stig í þriðja sæti, Manchester United 55 stig í fjórða sæti en Chelsea með 54 stig og Wolves með 52 eiga bæði eftir að spila síðar í dag.

Crystal Palace er áfram í 12. sæti með 42 stig og Bournemouth er áfram næstneðst með 27 stig.

Mason Greenwood skoraði tvö marka United á Old Trafford, Marcus Rashford, Anthony Martial og Bruno Fernandes eitt hver, en Junior Stanislas og Joshua King gerðu mörk Bournemouth.

Kelechi Ihenacho skoraði fyrsta mark Leicester gegn Palace og Jamie Vardy hin tvö. Fyrra mark Vardys var hans 100. mark í úrvalsdeildinni.

Fylgst var með gangi mála í leikjunum:

.

90. 3:0 á King Power. Jamie Vardy bætir við öðru marki sínu og síðan er flautað af.

88. Stutt eftir af báðum leikjum. United 5:2 yfir gegn Bournemouth og Leicester 2:0 yfir gegn Leicester. Stefnir í örugga heimasigra.

77. 2:0 á King Power. Jamie Vardy skorar sitt 100. mark í úrvalsdeildinni fyrir Leicester.

70. Þetta mun vera í fyrsta sinn frá 2011 sem Manchester United skorar fimm mörk í deildaleik á Old Trafford.

59. 5:2 á Old Trafford. Bruno Fernandes bætir við fimmta marki United með glæsilegu skoti úr aukaspyrnu.

54. 4:2 á Old Trafford. Mason Greenwood skorar sitt annað mark fyrir United í dag. Þá er þessi piltur kominn með 15 mörk á tímabilinu.

49. 3:2 á Old Trafford. Joshua King skorar fyrir Bournemouth gegn Manchester United úr vítaspyrnu eftir að Eric Bailly handlék boltann í vítateignum.

48. 1:0 á King Power. Kelechi Ihenacho skorar fyrir Leicester gegn Palace, 1:0, eftir sendingu frá Youri Tielemans.

46. Seinni hálfleikur er hafinn á Old Trafford og King Power.

45. Á King Power er staðan 0:0 í hálfleik hjá Leicester og Crystal Palace.

45. 3:1 á Old Trafford. Anthony Martial skorar þriðja mark United. Þetta er líka hans 20. mark á þessu tímabili. Glæsilegt skot, skrúfar boltann upp í hægra markhornið.. Kominn hálfleikur.

35. 2:1 á Old Trafford. Marcus Rashford skorar úr vítaspyrnu eftir að Adam Smith fékk  boltann í hönd. Þetta er 20. markið sem Rashford skorar á tímabilinu.

29. 1:1 á Old Trafford. Mason Greenwood jafnar fyrir Manchester United með föstu skoti eftir sendingu frá Bruno Fernandes.

16. 0:1 - Bournemouth kemst yfir á Old Trafford. Junior Stanislas skorar sitt fyrsta mark á tímabilinu þegar hann leikur laglega á Harry Maguire og sendir boltann á nærstöngina hjá David de Gea. Þetta er fyrsta markið sem United fær á sig á heimavelli síðan í janúar.

1. Leikirnir eru hafnir.

Manchester United og Leicester eru í hörðum slag um sæti í Meistaradeild Evrópu. Leicester er þar með betri stöðu í 3. sæti með 55 stig en United er komið með 52 stig í 5. sæti. Crystal Palace siglir lygnan sjó í 12. sæti með 42 stig en Bournemouth er í gríðarlega harðri fallbaráttu með 27 stig í næstneðsta sætinu.

Lið Manchester United og Bournemouth:

 Lið Leicester og Crystal Palace:

mbl.is