Jóhann Berg snéri aftur á völlinn

Jóhann Berg Guðmundsson er mættur aftur í lið Burnley.
Jóhann Berg Guðmundsson er mættur aftur í lið Burnley. Ljósmynd/Burnley

Burnley og Sheffield United skiptu með sér stigunum er þau mættust í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Urðu lokatölur á Turf Moor 1:1. 

Varnarmaðurinn James Tarkowski kom Burnley yfir á 43. mínútu með marki af stuttu færi eftir undirbúning hjá Jay Rodriguez og var staðan í hálfleik 1:0. 

Sheffield United svaraði með marki á 80. mínútu, en miðvörðurinn John Egan kláraði þá glæsilega úr þröngu færi á fjærstöng og þar við sat. 

Jóhann Berg Guðmundsson var í leikmannahópi Burnley í fyrsta skipti síðan að deildin fór af stað á ný eftir kórónuveirufrí. Spilaði Jóhann í um það bil hálfa mínútu en hann kom inn á sem varamaður á fimmtu mínútu uppbótartímans. 

mbl.is