Stórt bil sem United þarf að brúa

Paul Scholes í leik með United árið 2012.
Paul Scholes í leik með United árið 2012. AFP

Paul Scholes, fyrrverandi miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, segir að liðið þurfi að styrkja leikmannahóp sinn í sumar til þess að geta barist við lið á borð við Liverpool og Manchester City um Englandsmeistaratitilinn. Jadon Sancho hefur verið sterklega orðaður við United í allan vetur en hann er ekki leikmaður sem United þarf að mati Scholes.

Liðið þarf fyrst og fremst að bæta við sig framherja sem getur skorað mörk og þá vantar ennþá öflugan og sterkan miðvörð. „Það er stórt bil sem United þarf að brúa, á því leikur ekki nokkur vafi,“ sagði Scholes í samtali við BBC. „Forskotið sem Liverpool er með er ótrúlegt og Manchester City er líka í sérflokki eins og staðan er í dag.

Ég er samt ekki þeirra skoðunar að Liverpool og City séu miklu betri en önnur lið. Það hefur vissulega verið talað um að United þurfi allt upp í fimm leikmenn en eins og liðið er að spila þessa dagana þá erum við ekki að tala um nema tvo, mögulega þrjá leikmenn til viðbótar. United þarf markaskorara sem skorar alltaf sinn skerf af mörkum, tuttugu marka mann.

Liðið þarf líka miðvörð til þess að spila við hlið Harry Maguire. Lindelöf hefur staðið sig ágætlega á köflum en Maguire þarf einhvern sem virkilega lætur framherjana finna fyrir sér, líkt og Rio Ferdinand og Jaap Stam gerðu fyrir United á sínum tíma. Það myndi gera liðinu gott,“ bætti Scholes við.

mbl.is