Kallar skotmark United farþega

Jürgen Klopp og Jack Grealish heilsast er Liverpool og Aston …
Jürgen Klopp og Jack Grealish heilsast er Liverpool og Aston Villa mættust í gær. AFP

Jack Grealish, fyrirliði Aston Villa, hefur verið orðaður við Manchester United síðustu mánuði, en hann hefur verið langbesti leikmaður Villa á tímabilinu. Er talið að United þurfi að greiða 80 milljónir punda fyrir leikmanninn. 

Graeme Souness, fyrrverandi leikmaður og þjálfari Liverpool, er ekki sannfærður um að Grealish sé tilbúinn að spila með stórliði, þar sem hann er latur þegar boltinn er ekki nærri. 

„Hann er með gæði en stórliðin hafa ekki efni á að vera með farþega í liðinu sínu. Hann stendur og setur hendurnar á mjaðmirnar þegar hann missir boltann á meðan leikmenn toppliða reyna hvað þeir geta til að vinna hann til baka. Hann þarf að bæta það,“ sagði Souness, sem vinnur nú sem sérfræðingur á Sky. 

Hefur Grealish unnið 151 aukaspyrnu í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni, fleiri en nokkur annar. Knattspyrnustjórinn Dean Smith hefur kallað eftir því að Grealish fái meiri vernd frá dómurum þar sem önnur lið leggja sérstaka áherslu á að sparka hann niður. Souness sér hlutina hinsvegar í öðru ljósi. 

„Þegar ég var leikmaður vildirðu ekki láta brjóta af þér. Hann heldur of lengi í boltann og hann þarf að losa hann fyrr. Hann er að taka of margar snertingar. Ég hefði elskað að mæta honum á vellinum því ég hefði getað verið nálægt honum. Paul Scholes, Xavi og Iniesta eru leikmenn sem ég vildi ekki spila við því þeir voru eldsnöggir að hugsa,“ sagði Souness. 

mbl.is