Sannfærður um að City fái að spila í Meistaradeildinni

Pep Guardiola kemur skilaboðum áleiðis.
Pep Guardiola kemur skilaboðum áleiðis. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er sannfærður um að liðið megi spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð, þrátt fyrir að UEFA hafi úrskurðað félagið í tveggja ára bann frá Evrópukeppnum fyrir brot á fjármálareglum. 

Félagið áfrýjaði úrskurðinum til CAS, Alþjóðaíþróttadómstólsins, og er dómstóllinn þegar byrjaður að vinna í máli enska knattspyrnufélagsins. Hefur félagið ávallt lýst yfir sakleysi sínu og er Guardiola sannfærður um að banninu verði aflétt. 

„Við berum mikið traust til fólksins sem vinnur í þessu máli fyrir okkur og ég er sannfærður um að við fáum að spila í Meistaradeildinni. Það er auðvitað það sem við viljum. Við ættum að fá svar 13. júlí og vonandi ber erfiðisvinna á bakvið tjöldin árangur,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi. 

City hafði betur gegn Real Madrid á útivelli í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum keppninnar í ár, 2:1, en ekki tókst að leika seinni leikinn vegna kórónuveirunnar. Óvíst er hvort hann verði leikinn í Portúgal, eins og átta liða úrslit, undanúrslit og úrslitaleikurinn, eða hvort City fái að leika hann á heimavelli. 

mbl.is