Leeds kaupir portúgalskan landsliðsmann

Helder Costa verður hjá Leeds næstu fjögur árin.
Helder Costa verður hjá Leeds næstu fjögur árin. Ljósmynd/Leeds United

Enska B-deildarfélagið Leeds United hefur gengið frá kaupum á portúgalska landsliðsmanninum Helder Costa. Gerir Costa fjögurra ára samning við Leeds. 

Costa hefur leikið með Leeds á leiktíðinni þar sem hann kom á lánssamningi síðasta sumar. Hafa félögin nú komist að samkomulagi um kaupverð en talið er að það sé um 15 milljónir punda. 

Portúgalinn lék stórt hlutverk hjá Wolves er liðið vann B-deildina árið 2018 og lék í kjölfarið sinn fyrsta landsleik fyrir Portúgal þar sem hann skoraði í 3:1-sigri á Skotum í vináttuleik. 

Costa er uppalinn hjá Benfica en hann hefur einnig leikið með Deportivo, Mónakó og Wolves. Hefur hann leikið 40 leiki í öllum keppnum með Leeds á leiktíðinni og skorað fjögur mörk. 

Leeds er í toppsæti B-deildarinnar með 78 stig, einu stigi meira en West Brom þegar fimm umferðir eru eftir. 

mbl.is