Hefur leikið sinn síðasta leik með Liverpool

Adam Lallana hefur leikið sinn síðasta leik með Liverpool.
Adam Lallana hefur leikið sinn síðasta leik með Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að enski miðjumaðurinn Adam Lallana hafi leikið sinn síðasta leik með liðinu, en Lallana verður samningslaus eftir tímabilið. 

Vill þýski stjórinn vernda Lallana fyrir meiðslum, áður en hann skiptir um félag, en óvíst er hvað tekur við hjá Lallana sem kom til Liverpool frá Southampton fyrir sex árum. 

„Það er ljóst að Adam fer í sumar. Ég ber mikla virðingu fyrir honum en það er ljóst að hann fer annað. Hann spilar ef við þurfum nauðsynlega á honum að halda en mér finnst það ólíklegt, það væri mjög óheppilegt ef hann myndi meiðast,“ sagði Klopp á blaðamannafundi. 

Lallana hefur leikið 178 leiki með Liverpool í öllum keppnum og skorað í þeim 22 mörk en hann er 32 ára. 

mbl.is