Fá að spila á heimavelli í Meistaradeildinni

Manchester City fær að leika við Real Madríd á heimavelli.
Manchester City fær að leika við Real Madríd á heimavelli. AFP

UEFA tilkynnti í dag að síðari leikir viðureigna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta, sem ekki tókst að leika vegna kórónuveirunnar, fari ekki fram á hlutlausum völlum. Fjórir leikir eru eftir í 16-liða úrslitunum og verða þeir leiknir á heimavöllum liðanna sem léku fyrri leikinn á útivelli. 

Juventus og Lyon mætast því í Tórínó, Manchester City fær Real Madríd í heimsókn á Etihad-völlinn, Bayern München og Chelsea mætast í Bæjaralandi og Barcelona og Napólí mætast í Barcelona. 

Lyon er með 1:0-forskot eftir fyrri leikinn gegn Juventus, Manchester City vann 2:1-útisigur á Real Madríd, Bayern vann Chelsea örugglega, 3:0, í fyrri leik liðanna og Barcelona og Napólí gerðu 1:1-jafntefli á Ítalíu í fyrri leik sínum. 

Fara leikirnir fram 7.-8. ágúst. Ekki verða leikn­ir tveir leik­ir í fjórðungs- og undanúr­slit­un­um eins og hefð er fyr­ir held­ur verður aðeins spilaður einn leik­ur og verður leikið í Portúgal. Þar fer úrslitaleikurinn fram 23. ágúst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert