Kólumbíumaðurinn gæti komið í stað Gylfa

James Rodriguez.
James Rodriguez. AFP

Knatt­spyrnumaður­inn James Rodrígu­ez gæti verið eitt af skotmörkum enska félagsins Everton þegar félagaskiptaglugginn er opnaður fyrir næstu leiktíð en stjórinn Carlo Ancelotti viðurkennir að liðið þarf góða leikmenn.

„Við þurfum góða leikmenn,“ sagði Ancelotti á blaðamannafundi sínum í gær, aðspurður um hvort hann hefði áhuga á Rodríguez. „Hann er leikmaður sem ég er mjög hrifinn af,“ bætti hann við en margir leikmanna Everton hafa verið harðlega gagnrýndir á tímabilinu. Meðal þeirra er íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson. Ef Rodríguez fer til Everton er ljóst að þeir muni berjast um sömu stöðu, það er ef Gylfi verður ekki einfaldlega seldur.

Kól­umb­íumaður­inn hef­ur verið samn­ings­bund­inn Real Madríd á Spáni frá 2014 en hann spilaði tvö tíma­bil með Bayern München sem lánsmaður. Hann neitaði að spila með Real í vikunni og er ólíklegt að hann verði áfram innan raða félagsins. Rodrígu­ez er ein­ung­is 28 ára gam­all en fer­ill hans hef­ur verið á hraðri niður­leið frá því hann gekk til liðs við Real Madrid frá Monaco eft­ir HM 2014. Hann hef­ur ein­ung­is byrjað fimm leiki í spænsku 1. deild­inni á tíma­bil­inu þar sem hann hef­ur skorað eitt mark og lagt upp eitt mark en hann mun að öll­um lík­ind­um yf­ir­gefa fé­lagið í sum­ar.

mbl.is