Pirraði sig á Gylfa alla nóttina

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hefur mátt sæta nokkurri gagnrýni fyrir frammistöðu sína með Everton í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Gylfi hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu og aðeins skorað tvö mörk í 30 deildarleikjum.

Íslenski landsliðmaðurinn byrjaði fyrstu tvo leiki Everton eftir kórónuveiruhléið á varamannabekknum en hefur verið í byrjunarliði í síðustu tvö skipti, síðast í 1:0-tapi gegn Tottenham á mánudaginn en honum var skipt út á 67. mínútu í Lundúnum.

Gary Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United og núverandi sparkspekingur á Sky Sports, var ekki hrifinn af frammistöðu Gylfa á mánudaginn og svaf hreinlega illa vegna hennar.

„Hann hefur verið lélegur, alveg virkilega,“ sagði Neville á Sky í umfjöllun um leikinn og sneri sér svo að atviki þar sem Gylfi virtist ekki þora að fara af krafti í tæklingu. „Ég næ þessari tæklingu ekki úr hausnum á mér, þar sem hann hörfar frá. Þetta var fast í hausnum á mér í alla nótt, þetta pirrar mig!“

Carlo Ancelotti, stjóri Everton, kom hins vegar sínum manni til varnar eftir leikinn. „Gylfi er 100% atvinnumaður og ég sá hann aldrei hörfa frá tæklingu. Kannski hefði hann getað gert betur gegn Tottenham en það sama á um alla leikmennina mína.“

mbl.is