Vongóður um að Pogba skrifi undir

Paul Pogba er snúinn aftur í lið Manchester United eftir …
Paul Pogba er snúinn aftur í lið Manchester United eftir erfið meiðsli. AFP

Paul Pogba, miðjumaður enska knatt­spyrnu­fé­lags­ins Manchester United, mun vonandi endurnýja samning sinn við félagið og spila veigamikið hlutverk í liðinu á næstu árum en þetta sagði stjórinn Ole Gunnar Solskjær á blaðamannafundi sínum í gær.

Norðmaðurinn var að tala við fjölmiðla fyrir leik United gegn Aston Villa í kvöld en Manchester-liðið er ósigrað í síðustu 16 leikjum sínum og gæti unnið sinn fjórða sigur í röð gegn nýliðunum sem sitja í fallsæti.

Einn maður sem hefur átt stóran þátt í uppgangi United er Frakkinn Paul Pogba sem spilaði lítið fyrri part tímabils vegna meiðsla. Þá hefur hann ítrekað verið orðaður við félagsskipti frá félaginu og gaf það meira að segja í skyn sjálfur í fyrra að hann vildi yfirgefa Manchester.

„Ég get ekki tjáð mig um einstaka mál en auðvitað viljum við halda okkar bestu leikmönnum. Paul hefur verið frábær eftir að hann kom til baka, hann er að njóta þess að spila fótbolta aftur og við skulum sjá hverju það skilar okkur,“ sagði Solskjær.

mbl.is