Áfrýjun Arsenal hafnað

Eddie Nketiah gengur svekktur af velli.
Eddie Nketiah gengur svekktur af velli. AFP

Arsenal áfrýjaði rauða spjaldinu sem framherjinn ungi Eddie Nketiah fékk gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á miðvikudaginn var. Hefur enska knattspyrnusambandið hafnað áfrýjuninni og fer framherjinn því í þriggja leikja bann. 

Nketiah missir af stórleikjum því hann verður ekki með Arsenal gegn Tottenham og Liverpool í deildinni og svo undanúrslitum bikarsins gegn Manchester City. 

Fékk Nketiah reisupassann fyrir ljótt brot, örskömmu eftir að hann kom inn á sem varamaður. Nketiah byrjaði tímabilið að láni hjá Leeds en fékk lítið að spreyta sig og snéri því aftur til Arsenal þar sem hann hefur skorað fjögur mörk í fjórtán leikjum eftir áramót. 

mbl.is