Búinn að sætta sig við fall

Daniel Farke, knattspyrnustjóri Norwich.
Daniel Farke, knattspyrnustjóri Norwich. AFP

Daniel Farke, knattspyrnustjóri Norwich, er búinn að sætta sig við að liðið falli úr ensku úrvalsdeildinni, jafnvel þótt það vinni alla fjóra leikina sem eftir eru af tímabilinu. 

Norwich er tíu stigum frá öruggu sæti í deildinni þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir og er ljóst að liðið fellur með tapi gegn West Ham á morgun. Hefur Norwich tapað öllum leikjum sínum eftir að deildin fór af stað á ný eftir kórónuveirufrí. 

„Við erum fallnir ef við vinnum ekki næsta leik en það er alveg ljóst að við erum fallnir, jafnvel þótt við vinnum alla fjóra leikina sem eftir eru. Við viljum enda tímabilið eins vel og hægt er, en við verðum að taka stöðunni eins og hún er,“ sagði Farke á blaðamannafundi í dag. 

„Við viljum ná í fleiri stig og geta verið stoltir af okkar frammistöðu en ég myndi segja að það væri 99% líkur á að við séum fallnir,“ sagði Þjóðverjinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert