De Gea bað Schmeichel afsökunar

David de Gea.
David de Gea. AFP

Markvörðurinn David de Gea hefur beðið Peter Schmeichel afsökunar eftir að hann varð í gær leikjahæsti erlendi leikmaður Manchester United frá upphafi á kostnað danska markmannsins fyrrverandi.

De Gea spilaði leik númer 399 fyrir United í gærkvöldi þegar liðið vann 3:0-sigur á Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og hefur Spánverjinn nú spilað einum leik meira en Schmeichel gerði en hann kom til félagsins árið 2011 frá Atlético Madríd.

„Ég bið Schmeichel afsökunar,“ sagði kíminn De Gea í viðtali við sjónvarpsstöð United eftir leik. „Ég hef verið hérna lengi og spilað vel til að komast á þennan stað, ég er stoltur af því að spila fyrir þetta félag og á vonandi aðra 400 leiki eftir!“

Þó enginn leikmaður utan Bretlandseyja hafi spilað fleiri leiki fyrir Manchester-liðið er Spánverjinn langt frá leikjahæstu mönnum. Walesverjinn Ryan Giggs á metið en hann spilað 963 leiki á árunum 1991 til 2014 en Sir Bobby Charlton og Paul Scholes koma næstir með 758 og 718 leiki hvor. Schmeichel stóð á milli stanga United 398 sinnum á árunum 1991 til 1999.

mbl.is