Fernandes sá fyrsti síðan Ronaldo

Bruno Fernandes
Bruno Fernandes AFP

Bruno Fernandes, miðjumaður Manchester United, hefur verið valinn leikmaður júní mánaðar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en þetta er annað skiptið í röð þar sem Portúgalinn hreppir verðlaunin.

Fernandes hefur verið frábær í liði United sem hefur spilað sinn besta fótbolta í langan tíma undanfarnar vikur en liðið hefur unnið fjóra deildarleiki í röð, alla með þremur mörkum. United er ósigrað í 17 leikjum og hefur Portúgalinn skorað fimm mörk og átt þrjár stoðsendingar síðan í byrjun febrúar.

Hann var einnig valinn leikmaður mánaðarins í febrúar, en ekki var neinn valinn í mars og apríl vegna kórónuveirufaraldursins. Hann er því fyrsti leikmaður Manchester United til að verða fyrir valinu tvisvar í röð síðan Cristiano Ronaldo var valinn bestur í nóvember og desember árið 2006.

Nuno Santo, knattspyrnustjóri Wolves, var valinn stjóri mánaðarins enda Úlfarnir ósigraðir í síðustu fimm leikjum sínum. Þá var laglegt mark Fernandes gegn Brighton valið mark mánaðarins en það var fast, viðstöðulaust skot í markið eftir snögga skyndisókn.

mbl.is