Ætlar að halda tryggð við City

Kevin De Bruyne ætlar sér ekki að yfirgefa Manchester City …
Kevin De Bruyne ætlar sér ekki að yfirgefa Manchester City í sumar. AFP

Kevin De Bruyne, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City, ætlar sér ekki að yfirgefa félagið á næstu árum þrátt fyrir að félaginu verði meinað að leika í Meistaradeild Evrópu næstu tvö árin en þetta staðfesti hann í samtali við Sportsmail. Örlög City ráðast á mánudaginn kemur þegar Alþjóða íþróttadómstóllinn mun úrskurða í máli félagsins en forráðamenn City eru sagðir hafa ítrekað brotið fjárhagsreglum UEFA.

De Bruyne hefur komið sér vel fyrir í Manchester ásamt eiginkonu sinni en saman eiga þau tvö börn og er það þriðja á leiðinn. De Bruyne er í viðræðum við félagið um nýjan samning en hann er 29 ára gamall og þénar í kringum 280.000 pund á viku. De Bruyne hefur verið algjör lykilmaður í liði City frá því hann kom til félagsins frá Wolfsburg árið 2015.

Alls hefur hann leikið 216 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 54 mörk og lagt upp önnur 87 fyrir liðsfélaga sína. Talið er að margir lykilmenn liðsins muni fara fram á sölu, fari svo að félagið verði úrskurðað í bann, en Raheem Sterling hefur til að mynda verið orðaður við stórlið Real Madrid að undanförnu.

mbl.is