Varaskeifa fyrir Sancho?

Ousmane Dembélé hefur ekki náð sér á strik á Spáni.
Ousmane Dembélé hefur ekki náð sér á strik á Spáni. AFP

Ousmane Dembélé, sóknarmaður knattspyrnuliðs Barcelona á Spáni, mun að öllum líkindum yfirgefa Barcelona í sumar en frá þessu greinir Sport á Spáni. Dembélé hefur ekki heillað forráðamenn félagsins síðan hann kom til Spánar frá Borussia Dortmund árið 2017 fyrir 95 milljónir punda.

Þá hefur Dembélé einnig verið mikið meiddur á Spáni en The Athletic greinir frá því að Manchester United sé tilbúið að leggja fram tilboð í leikmanninn, fari svo að Jadon Sancho komi ekki til Englands. Sancho hefur verið sterklega orðaður við United í allan vetur en Dortmund vill fá í kringum 120 milljónir punda fyrir sóknarmanninn.

Það er upphæð sem United er ekki sagt tilbúið að borga, sérstaklega þar sem fjármál félagsins eru í ákveðinni óvissu vegna efnahagsáhrifa kórónuveirufaraldursins. United gæti því freistast til þess að reyna fá Dembélé, sem kostar ekki nema 50 milljónir punda, en Börsungar vilja losna við Frakkann í sumar.

mbl.is