Aston Villa eygir enn von

Trezeguet fagnar hér fyrra marki sínu á Villa Park í …
Trezeguet fagnar hér fyrra marki sínu á Villa Park í dag. AFP

Lið Aston Villa er ekki dautt úr öllum æðum eftir lífsnauðsynlegan 2:0-sigur á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Villa Park í dag. Villa er fjórum stigum frá öruggu sæti þegar þrjár umferðir eru eftir.

Villa var búið að tapa fjórum og gera tvö jafntefli síðan keppni hófst aftur eftir hlé vegna kórónuveirufaraldursins og staðan orðin ansi slæm við botn töflunnar. Laglegt mark Trezeguet eftir fast leikatriði í uppbótartíma fyrri hálfleiks kom hins vegar heimamönnum á bragðið í dag.

Egyptinn tvöfaldaði svo forystuna með öðru marki sínu á 59. mínútu og dugði það heimamönnum til sigurs. Leikurinn var þó ekki laus við umdeild atvik. Mamadou Sakho kom gestunum yfir strax á 8. mínútu þegar boltinn virtist hrökkva af öxl hans og í markið en myndbandsdómarar dæmdu markið ógilt.

Villa er í 18. sæti með 30 stig, fjórum stigum frá bæði West Ham og Watford. Crystal Palace er í 14. sæti með 42 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert