Knattspyrnumaður þorir ekki út úr skápnum

Leikmaðurinn þorir ekki að koma út úr skápnum.
Leikmaðurinn þorir ekki að koma út úr skápnum. AFP

Samkynhneigður leikmaður í ensku úrvalsdeildinni þorir ekki að koma út úr skápnum en hann sendi enska miðlinum Mirror opið bréf þess efnis. Hefur hann áhyggjur af viðbrögðum samherja sinna og stuðningsmanna. 

„Ég er samkynhneigður og það eitt að skrifa þetta bréf er stórt skref fyrir mig. Að lifa svona er algjör martröð og hefur áhrif á andlega heilsu mína. Mér finnst ég vera fastur og óttinn við að sannleikurinn komi í ljós gerir allt enn verra,“ skrifar leikmaðurinn m.a. í bréfinu. 

„Ég vona innilega að ég geti einn daginn sagt liðsfélögum mínum sannleikann, sannleikann sem ég hef vitað síðan ég var 19 ára gamall. Ég er heppinn að vera á góðum launum og ég get keypt það sem ég vil fyrir mig og fjölskylduna, en stundum er ég einmanna. Það er of áhættusamt fyrir mig að vera í sambandi,“ skrifaði hann sömuleiðis í bréfinu. 

Justin Fashanu var fyrsti leikmaðurinn á Englandi til að koma út úr skápnum opinberlega en hann framdi sjálfsmorð árið 1998 þegar hann var aðeins 37 ára gamall. 

mbl.is