Lífsnauðsynlegur sigur gegn Leicester

Dominic Solanke skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu í dag.
Dominic Solanke skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu í dag. AFP

Dominic Solanke skoraði tvívegis fyrir Bournemouth þegar liðið vann afar mikilvægan sigur gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Vitality-vellinum í Bournemouth í kvöld. Leiknum lauk með 4:1-sigri Bournemouth sem var 1:0-undir í hálfleik.

Jamie Vardy kom Leicester yfir á 23. mínútu áður en Junior Stanislas jafnaði metin fyrir Bournemouth með marki úr vítaspyrnu á 66. mínútu. Mínútu síðar kom títtnefndur Solanke Bournemouth yfir og Caglar Söyüncü fékk að líta beint rautt spjald í liði Leicester skömmu síðar.

Bournemouth-menn nýttu sér liðsmuninn og Jonny Evans varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 83. mínútu áður en Solanke bætti við fjórða markinu á 87. mínútu. Bournemouth fer með sigrinum í 31 stig í átjánda sæti deildarinnar og er nú fjórum stigum frá öruggu sæti.

Leicester er nú komið niður í þriðja sæti deildarinnar í 59 stig en gengi liðsins eftir að deildin hófst á nýjan leik hefur vægast sagt verið afleitt og hefur liðið aðeins unnið einn leik síðan deildin hófst að nýju þann 17. júní síðastliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert