Þetta er áhyggjuefni

Leifur Andri Leifsson í tæklingu.
Leifur Andri Leifsson í tæklingu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Mér fannst við spila þokkalega, sagði Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK, í samtali við mbl.is eftir 0:2-tap á heimavelli fyrir Víkingi Reykjavík í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. 

HK byrjaði leikinn betur, en um leið og liðið lak inn slysalegu marki í fyrri hálfleik, varð verkið erfiðara. „Við vorum með þá þar sem við vildum hafa þá þangað til þeir skora fyrsta markið. Við vorum að vinna boltann af þeim og skapa okkur ágætisstöður, en það vantaði að skapa betri færi. Við gáfum þeim góðan leik en við verðum að læra af þessu og fá einhver stig.

Við settum hausinn niður í 5-10 mínútur og svo vorum við komnir inn í leikinn aftur. Í seinni hálfleik skora þeir seinna markið og það riðlar skipulaginu og við reynum að sækja meira og jafna leikinn. Heilt yfir er ég sáttur við leikinn, en að fá ekkert úr honum er helvíti súrt.“

Fyrra mark Víkinga kom úr aukaspyrnu utan af kanti og skoppaði boltinn í teignum og í netið, án þess að nokkur maður næði snertingu. „Það var algjör óþarfi. Í fyrsta lagi gáfum við þeim aukaspyrnu og svo eigum við bara að skalla þetta í burtu. Það var óþægilegt að boltinn skoppaði í teignum og enginn snertir hann.“

HK hefur tapað öllum þremur leikjum sínum til þessa á heimavelli, en liðið tapaði aðeins þremur leikjum á heimavelli allt síðasta sumar. „Það er áhyggjuefni. Við viljum vinna alla leiki hérna inni og við verðum að girða okkur í brók og sækja sigra. Það eru bara átta leikir eftir hérna inni og við viljum rétta úr þessu,“ sagði fyrirliðinn, sem er ekki sáttur við fimm stig úr sex leikjum í upphafi móts. 

„Ég er ósáttur. Fyrstu tveir leikirnir voru fínir og svo var KR leikurinn góður. Dampurinn hefur svolítið dottið úr þessu síðan. Við fórum aftur í grunninn á móti Skaganum og við sýndum aftur góða frammistöðu í dag en þetta þarf að fara að skila stigum og við verðum að halda áfram að spila vel og þá detta sigrarnir,“ sagði Leifur Andri. 

Frá leiknum í Kórnum í kvöld.
Frá leiknum í Kórnum í kvöld. mbl.is/Sigurður Unnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert