Vaknaði upp við rasísk skilaboð

Wilfried Zaha.
Wilfried Zaha. AFP

Knattspyrnumaðurinn Wilfried Zaha birti í morgun færslu á Twitter-síðu sinni þar sem hann segir frá þeim skilaboðum sem hann vaknaði upp við í morgun.

Zaha leikur með Crystal Palace og mætir Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í dag en óprúttnir stuðningsmenn Villa voru búnir að senda framherjanum rasísk ummæli og hóta honum öllu illu ef hann skyldi voga sér að skora í leiknum á eftir.

Zaha deildi skilaboðunum með fylgjendum sínum á Twitter og stóðu viðbrögðin ekki á sér. Lögreglan í Birmingham hefur hvatt leikmanninn til að tilkynna atvikið formlega og þá hafa bæði félögin, Crystal Palace og Aston Villa, fordæmt hegðunina. Í stuttri tilkynningu frá Villa segir að félagið muni aðstoða lögreglu í að hafa uppi á sökudólgunum og setja þá í lífstíðarbann frá öllum leikjum félagsins í framtíðinni.

„Þetta er fyrirlitlegt heigulsverk,“ sagði Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Crystal Palace, um ummælin í viðtali sínu við Sky Sports fyrir leikinn. „Það er sorglegt að leikmaður skuli þurfi að vakna upp við svona ummæli á leikdegi, það er engin afsökun fyrir svona hegðun, gjörsamlega engin.“

Færslu Zaha má skoða með því að smella hér.

mbl.is