Conte horfir til Chelsea

N'Golo Kanté gæti yfirgefið Chelsea í sumar.
N'Golo Kanté gæti yfirgefið Chelsea í sumar. AFP

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Inter Mílanó á Ítalíu, ætlar sér að reyna fá N'Golo Kanté, miðjumann Chelsea, í sumar en það er ítalski miðillinn Gazzetta dello Sport sem greinir frá þessu. Kanté hefur verið óheppinn með meiðsli á tímabilinu og þá greindist varnarsinnaði miðjumaðurinn einnig með kórónuveiruna í mars.

Chelsea er sagt tilbúið að selja leikmanninn sem er orðinn 29 ára gamall en hann hefur byrjað 20 leiki í ensku úrvalsdeldinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað þrjú mörk. Kanté var algjör lykilmaður í liði Chelsea þegar liðið varð Englandsmeistari tímabilið 2016-17 undir stjórn Conte en hann var þá valinn leikmaður ársins á Englandi.

Kanté er sagður tilbúinn að reyna fyrir sér annarsstaðar eftir fimm ár á Englandi en hann kom fyrst til Englands árið 2015 þegar Cladio Ranieri keypti hann til Leicester af franska 1.deildarfélaginu Caen. Kanté varð heimsmeistari með Frökkum á HM í Rússlandi 2018 en hann á að baki 39 landsleiki fyrir Frakka þar sem hann hefur skorað eitt mark.

mbl.is