Fagna úrskurði Alþjóða íþróttadómstólsins

Manchester City leikur í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.
Manchester City leikur í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester City mun leika í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en þetta staðfesti Alþjóða íþróttadómstóllinn í dag. City var dæmt í tveggja ára bann frá Evrópukeppnum fyrir brot á fjármálareglum UEFA í febrúar á þessu ári en City-menn áfrýjuðu til Alþjóða íþróttadómstólsins sem tók áfrýjun félagsins fyrir í dag.

City-menn sendu frá sér stutta yfirlýsingu á Twitter í dag en ítarlegri yfirlýsingu er að vænta frá félaginu á næstu dögum. „Forráðamenn félagsins í samráði við lögfræðinga Manchester City eiga eftir að fara ítarlega yfir niðurstöðu Alþjóða íþróttadómstólsins,“ segir meðal annars í yfirlýsingu City-manna.

„Félagið fagnar hins vegar niðurstöðu Alþjóða íþróttadómstólsins og að tekið hafi verið mark á þeim sönnunargögnum sem lögð voru fram í málinu. Félagið vill koma áleiðis þökkum til þeirra sem tóku að sér að úrskurða í málinu,“ segir ennfremur í fréttatilkynningu City sem er öruggt með sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

mbl.is