Klopp staðfestir hvenær hann hættir með Liverpool

Jür­gen Klopp
Jür­gen Klopp AFP

Jür­gen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur staðfest að hann mun yfirgefa félagið þegar samningur hans rennur út sumarið 2024 og þá hefur hann gefið í skyn að hann muni ljúka þjálfaraferlinum í heimalandinu.

Þjóðverjinn er 53 ára en hann tók við stjórnartaumnum hjá Liverpool árið 2015 og hefur gert liðið að bæði Englands- og Evrópumeisturum en liðið var nýlega deildarmeistari í fyrsta sinn í 30 ár. Klopp gerði nýjan samning við Liverpool í nóvember og gildir hann til 2024 og ætlar þjálfarinn geðþekki ekki að framlengja aftur.

„Ég ætla taka næstu fjögur ár hjá Liverpool og gera svo ekkert í heilt ár,“ sagði Klopp á blaðamannafundi sínum í morgun en Liverpool mætir Arsenal í úrvalsdeildinni á miðvikudaginn.

Klopp hefur áður gefið í skyn að hann muni ljúka ferlinum hjá Mainz þar sem hann var leikmaður í tíu ár og þjálfari í önnur átta. Hann hætti með Mainz árið 2008 og tók þá við Dortmund í sjö ár eða þangað til hann flutti til Englands.

mbl.is