Lést eftir skotárás í Frakklandi

Serge Aurier missti bróður sinn í nótt.
Serge Aurier missti bróður sinn í nótt. AFP

Cristopher Aurier, yngri bróðir knattspyrnumannsins Serge Aurier, lést í nótt eftir skotárás í Frakklandi en það er BBC sem greinir frá þessu. Árásin átti sér stað fyrir utan næturklúbb í borginni Toulouse í Frakklandi en hann var 26 ára gamall.

BBC greinir frá því að skotárásin hafi átt sér stað um fimm leytið í morgun en ekki hefur tekist að hafa upp á árásarmanninum. Cristopher Aurier var fluttur á sjúkrahús en ekki tókst að endurlífga hann við komuna þangað.

Cristopher Aurier hafði undanfarið leikið með Toulouse Rodéo í frönsku E-deildinni en hann hóf feril sinn hjá Lens í Frakklandi líkt og eldri bróðir sinn Serge Aurier sem leikur í dag með úrvalsdeildarliði Tottenham á Englandi.

Serge Aurier er ári eldri en bróðir sinn eða 27 ára gamall en hann gekk til liðs við Tottenham frá Frakklandsmeisturum PSG árið 2017. Þá hefur Aurier einnig leikið með Toulouse í Frakklandi en hann á að baki 62 landsleiki fyrir landslið Fílabeinsstrandarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert