Stjóri Gylfa vill engar afsakanir

Carlo Ancelotti var mjög ósáttur eftir 3:0-tap gegn Wolves á …
Carlo Ancelotti var mjög ósáttur eftir 3:0-tap gegn Wolves á útivelli um helgina. AFP

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton í ensku úrvalsdeildinni, var ómyrkur í máli í samtali við fjölmiðla eftir 3:0-tap liðsins gegn Wolves á útivelli í gær. Everton sá aldrei til sólar í leiknum en Raúl Jiménezm, Leander Dendoncker og Diogo Jota skoruðu mörk Wolves sem er með 55 stig í sjötta sæti deildarinnar en Everton er í ellefta sætinu með 45 stig.

„Við áttum slæman dag og ég er virkilega pirraður eftir frammistöðu liðsins,“ sagði Ancelotti. „Það er hægt að afsaka hluta af frammistöðunni en að sama skapi þá er ég ekki maður sem vil hlusta of mikið á afsakanir. Þessi frammistaða var einfaldlega ekki boðlega og hvernig leikmennirnir mæta til leiks var ekki boðlegt.

Ég er búinn að ræða ítarlega við leikmenn mína og þeir eru meðvitaðir um það að svona frammistaða verði ekki liðin. Við þurfum að leggja harðar að okkur á æfingasvæðinu og virkilega sýna það í leikjum okkar að við viljum sækja til sigurs. Ég ræddi þetta við alla leikmenn liðsins, maður á mann, að það sé margt sem þurfi að breytast,“ bætti Ancelotti við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert