Klopp hringdi í sterkasta fótboltamann Englands

Hinn stæðilegi Adebayo Akinfenwa í liði Wycombe lætur finna fyrir …
Hinn stæðilegi Adebayo Akinfenwa í liði Wycombe lætur finna fyrir sér í leik gegn Tottenham fyrir nokkrum árum. AFP

Enska knattspyrnufélaginu Wycom­be Wand­erers tókst að vinna sér sæti í ensku B-deildinni í fyrsta sinn í 133 ára sögu félagsins en með liðinu spilar hinn afar geðþekki framherji Adebayo Ak­in­fenwa.

Akinfenwa er oft kallaður sterkasti fótboltamaður Englands en hann er kraftalegur í útliti. Hann er orðinn 38 ára gamall og skoraði tíu mörk í 32 leikjum fyrir liðið í vetur en kappinn er frægur fyrir ást sína á Englandsmeisturum Liverpool og stjóranum Jürgen Klopp.

Eftir að Wycom­be sigraði Oxford United 2:1 í úr­slita­leik um­spils C-deild­ar­inn­ar á Wembley í gær­kvöld fór Akinfenwa á kostum í viðtali við Sky Sports eftir leik og sagði meðal annars: „Sá eini sem má hringja í mig á WhatsApp er Klopp svo við getum fagnað saman!“

Þýski þjálfarinn, sem stýrði Liverpool til sigurs í úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í 30 ár á dögunum, lét ekki segja sér það tvisvar og hringdi í Akinfenwa en skemmtilegt samtal þeirra má sjá í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert