Chelsea hefur alltaf verið risastórt félag

Hakim Ziyech er orðinn leikmaður Chelsea.
Hakim Ziyech er orðinn leikmaður Chelsea. AFP

Hakim Ziyech er byrjaður að æfa með enska knattspyrnufélaginu Chelsea í fyrsta sinn eftir að 33 milljón punda félagsskiptin hans frá Ajax voru staðfest í febrúar. Sóknarmaðurinn átti upprunalega að klára tímabilið með Ajax en hollensku deildinni var síðar aflýst vegna kórónuveirunnar.

Þessi 26 ára gamli mar­okkóski landsliðsmaður skoraði 38 deildarmörk í 112 leikjum fyrir Ajax frá árinu 2016 þegar hann færði sig um set frá Twente. „Þegar þú ert ungur þá dreymir þig um ensku úrvalsdeildina,“ er haft eftir Ziyech í viðtali sem birtist á heimasíðu Chelsea.

„Chelsea hefur alltaf verið risastórt félag, þegar ég var í unglingaliði Heerenveen horfði ég á leikmenn eins og Didier Drogba, Frank Lampard og John Terry spila fyrir þetta lið. Að spila hér sjálfur í dag er frábært.“

Hann mun þó ekki geta tekið þátt í síðustu leikjum Chelsea á tímabilinu heldur verður hann að bíða eftir næsta tímabili til að spila sinn fyrsta keppnisleik fyrir Lundúnaliðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert