Leikmaður United fær heiðursgráðu

Marcus Rashford er að gera góða hluti á vellinum og …
Marcus Rashford er að gera góða hluti á vellinum og utanvallar. AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Marcus Rashford verður heiðraður með heiðursgráðu háskólans í Manchester fyrir vinnu sína utanvallar á meðan enska deildin var í fríi vegna kórónuveirunnar. 

Rashford var að hetju eft­ir að hann fékk stjórn­völd til að skipta um skoðun og halda áfram að út­vega fá­tæk­um fjöl­skyld­um ókeyp­is skóla­máltíðir fyr­ir börn sín.

Á meðan allt var lokað á Englandi vegna út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar tók breska rík­is­stjórn­in upp styrki til fjöl­skyldna á þann hátt að börn­in fengju ókeyp­is skóla­máltíðir. Þetta átti að gilda á meðan skóla­árið stæði yfir en leggj­ast af í sum­ar­frí­inu.

Rash­ford kom af stað her­ferð til að fá rík­is­stjórn­ina til að snúa við blaðinu og halda áfram að út­býta styrkj­un­um til barna­fjöl­skyldn­anna í sum­ar­frí­inu og hef­ur nú fengið í gegn að því verði haldið áfram næstu sex vik­urn­ar.

Á meðal þeirra sem hlotið hafa sama heiður eru Sir Alex Ferguson, Sir Bobby Charlton og Vincent Kompany. 

„Ég er stoltur af mér og fjölskyldu minni. Það er ótrúlegt að vera á sama lista og þetta ótrúlega fólk sem hefur hlotið sama heiður,“ sagði Rashford í yfirlýsingu. 

mbl.is