Erfitt að vera neikvæður eftir jákvætt tímabil

Jürgen Klopp á hliðarlínunni í gær.
Jürgen Klopp á hliðarlínunni í gær. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var að vonum svekktur eftir 2:1-tap liðsins gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Sadio Mané kom Liverpool yfir snemma leiks en Alexandre Lacazette og Reiss Nelson voru á skotskónum fyrir Arsenal en bæði mörkin komu eftir vandræðagang í vörn Englandsmeistarana.

„Ég er vonsvikinn,“ sagði Jürgen Klopp. „Ég er ánægður með spilamennsku liðsins og ef við horfum bara á hana þá tel ég okkur sjaldan hafa spilað betur hérna. Við byrjuðum leikinn virkilega vel og ég man í raun ekki eftir jafn miklum yfirburðum frá mínu liði frá því að ég tók við Liverpool-liðinu.

Við fáum hins vegar á okkur mikil klaufamörk sem er mannlegt því það er jú mannlegt að gera mistök. Þegar að maður er með fulla stjórn á leiknum þá má maður ekki tapa boltanum á hættulegum svæðum og við vorum kannski of ákafir í að ætla að skora annað mark strax. Við getum lært af þessum leik og vonandi gerum við ekki sömu mistök aftur.

Það er erfitt fyrir mig að mæta í viðtal og ætla að vera neikvæður eftir svona jákvætt tímabil þar sem liðið verður Englandsmeistari í fyrsta sinn í þrjátíu ár. Við unnum titilinn snemma og erum með 93 stig, það er eiginlega ekki hægt að biðja um neitt meira, jafnvel þótt ég hefði viljað fara yfir 100 stigin,“ bætti Klopp við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert