Klopp kennir Lampard góða siði

Jür­gen Klopp og Frank Lampard rifust á hliðarlínunni á Anfield …
Jür­gen Klopp og Frank Lampard rifust á hliðarlínunni á Anfield í fyrradag. AFP

Knattspyrnustjórarnir Jür­gen Klopp og Frank Lampard elda nú saman grátt silfur eftir leik Liverpool og Chelsea á Anfield í ensku úrvalsdeildinni á miðvikudaginn. Stjórarnir rifust á hliðarlínunni á meðan á leiknum stóð og eftir á kallaði Lampard kollega sinn hrokafullan.

Lampard brást illur við á hliðarlínunni eftir að Liverpool fékk auka­spyrnu á hættu­leg­um stað og vont varð verra fyr­ir Lamp­ard þegar Trent Al­ex­and­er-Arnold skoraði beint úr auka­spyrn­unni. Í viðtölum eftir leik sagði Englendingurinn: „Vel gert hjá Li­verpool að vinna deild­ina en þeir mega ekki vera of hroka­full­ir. Þess vegna varð ég pirraður. Þetta er búið núna og þetta var aðeins í hita leiks­ins.“

Klopp var ekki sáttur með þessi ummæli Lapmards og svaraði honum á blaðamannafundi sínum í dag fyrir lokaumferðina sem fer fram á sunnudaginn. „Við erum ekki hrokafullir, þú getur ekki hreytt því í okkur,“ hefur BBC eftir Klopp.

„Frank er keppnismanneskja og ég ber mikla virðingu fyrir því. Menn segja ýmislegt á hliðarlínunni og rífast en þegar leikurinn er búinn er það mál sömuleiðis útrætt. Hann verður að læra það, að þegar leikurinn er búinn þá hætta menn að rífast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert