Sér eftir rifrildinu við Klopp

Frank Lampard og Jür­gen Klopp heilsast eftir leik.
Frank Lampard og Jür­gen Klopp heilsast eftir leik. AFP

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, og Jür­gen Klopp, kollegi hans hjá Liverpool, rif­ust á hliðarlín­unni á meðan liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á miðvikudaginn var.

Lamp­ard brást ill­ur við á hliðarlín­unni eft­ir að Li­verpool fékk auka­spyrnu á hættu­leg­um stað og vont varð verra fyr­ir Lamp­ard þegar Trent Al­ex­and­er-Arnold skoraði beint úr auka­spyrn­unni. 

Myndband af rifrildi Klopp og Lampard fór í dreifingu á samfélagsmiðlum. Í myndbandinu má heyra Lampard öskra á Klopp og m.a. segja honum að fara til fjandans. 

„Ég hef séð myndbandið af þessu og ég sé eftir því sem ég sagði. Svona myndbönd eru fljót að dreifast á samfélagsmiðlun og ég á tvær ungar dætur sem gætu séð þetta. Ég sé hinsvegar ekkert eftir því að hafa komið liðinu mínu til varnar,“ sagði Lampard á blaðamannafundi í dag. 

„Það var mikið  um að vera á bekkjunum en ég hef ekkert á móti Jür­gen Klopp, hann hefur gert frábæra hluti. Eins og ég hef áður tekið fram þurfa þeir samt að passa sig að vera ekki of hrokafullir. Ég hefði fengið mér einn bjór með Klopp eftir leik ef þeirra lið hefði ekki farið að lyfta bikarnum,“ sagði Lampard ennfremur. 

mbl.is