Ætlar að taka eitt tímabil í viðbót

Neil Warnock
Neil Warnock AFP

Neil Warnock verður áfram knattspyrnustjóri Middlesbrough eftir að honum tókst að hjálpa liðinu að halda sæti sínu í ensku B-deildinni í sumar.

Warnock er orðinn 71 árs gamall og sagðist vera hættur í þjálfun á síðasta ári en hann tók við Boro í síðasta mánuði þegar liðið var í fallsæti og átta leikir voru eftir af tímabilinu. Undir stjórn hans unnust fjórir leikir og liðið bjargaði sér á lokadeginum.

Hann hefur nú framlengt samning sinn um eitt ár, en Middlesbrough er sautjánda liðið sem Warnock þjálfar á ferlinum. Hann hefur verið í þjálfun frá 1980 og stýrt liðum sínum í tæplega 1.500 leikjum. Middlesbrough staðfesti þetta á heimasíðu sinni í dag og hefur eftir þjálfaranum að hann ætli loks að hætta eftir tímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert