Klopp besti þjálfarinn - Vakti Sir Alex um miðja nótt

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var í gærkvöldi valinn þjálfari ársins af samtökum þjálfara á Englandi fyrir að hafa stýrt liðinu til sigurs í deildarkeppninni í fyrsta sinn í 30 ár.

Klopp og lærisveinar hans eru nú ríkjandi Englands- og Evrópumeistarar og fékk Þjóðverjinn viðurkenningu fyrir afrek sín, sjálfan Sir Alex Ferguson-bikarinn sem nefndur er í höfuðuð á Skotanum sem vann til fjölmargra afreka sem stjóri Manchester United.

Það var Sir Alex sjálfur sem tilkynnti sigurvegarann á Sky Sports í gær. „Vel gert Jürgen! Við tölum um 16 ára bið Leeds eftir úrvalsdeildarsæti en Liverpool beið í þrjátíu ár með að vinna deildina, magnað! Þú verðskuldar þetta,“ sagði Sir Alex. „Ég ætla að fyrirgefa þér að vekja mig klukkan hálffjögur um nóttina til að segja mér að þú vannst deildina,“ bætti Skotinn kíminn við.

Klopp var sjálfur hæstánægður með verðlaunin. „Ég sé nöfnin sem hafa unnið þessi verðlaun áður, stór nöfn hjá Liverpool eins og Bill Shankly, Bob Paisley, Joe Fagan og Kenny Dalglish,“ sagði þjóðverjinn og lofsöng svo Skotann sem stýrði erkifjendunum.

„En nafnið á bikarnum er nafn Sir Alex Ferguson. Ég veit að það er ekki hundrað prósent viðeigandi, sem stjóri Liverpool, en ég dáist að honum. Hann var fyrsti breski knattspyrnustjórinn sem ég hitti og við borðuðum morgunmat saman. Hann man örugglega ekki eftir því en fyrir mér var þetta eins og að hitta páfann!

Mig dreymdi ekki um að halda einn daginn á bikar sem er nefndur í höfuðið á honum.“

Marcelo Bielsa, stjóri Leeds, Gareth Ainsworth, stjóri Wycombe og sigurvegari síðasta árs, Chris Wilder, stjóri Sheffield United, voru einnig tilnefndir til verðlaunanna.

Sir Alex Ferguson.
Sir Alex Ferguson. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert