Myndi koma Manchester United á toppinn

Harry Kane.
Harry Kane. AFP

Manchester United á að leggja allt í sölurnar og reyna að kaupa Harry Kane frá Tottenham í félagaskiptaglugganum sem nú er opinn. Með enska landsliðsfyrirliðann í framlínunni yrði United aftur að toppbaráttuliði.

Þetta skrifar Paul Merson, fyrrverandi leikmaður Arsenal, í vikulegum pistli sínum á Sky Sports. Merson telur Kane, sem skoraði 18 mörk í 27 leikjum á nýliðnu tímabili, líklegan til að yfirgefa Lundúnaliðið í sumar.

„Manchester United þarf alvöruframherja og ef félagið kaupir Kane fer það á toppinn á næstu leiktíð, það yrði ansi líklegt með hann innanborðs,“ skrifar Merson sem telur gengi Anthony Martial vera of slitrótt.

Frakkinn átti sitt besta tímabil í vetur fyrir United, skoraði 17 deildarmörk, en hann hefur oft ekki sýnt nægilegan stöðugleika. „Martial er heitur og kaldur til skiptis. Þegar hann er heitur er hann stórkostlegur en þú vinnur ekki deildina með svona leikmann innanborðs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert