Lykilmaðurinn skrifar undir nýjan samning

James Maddison hefur skrifað undir nýjan samning við Leicester.
James Maddison hefur skrifað undir nýjan samning við Leicester. AFP

Knattspyrnumaðurinn James Maddison, lykilmaður Leicester á Englandi, hefur skrifað undir nýjan samning við félagið sem gildir til 2024. Samkvæmt BBC mun hann fá um hundrað þúsund pund í vikulaun.

Fréttirnar eru jákvæðar fyrir Leicester-menn sem voru grátlega nálægt því að vinna sér inn Meistaradeildarsæti á næstu leiktíð en töpuðu gegn Manchester United í lokaumferðinni, 2:0, og urðu að láta sér 5. sæti í úrvalsdeildinni og þátttöku í Evrópudeildinni í vetur duga.

Maddison, 23 ára, hefur verið einn af bestu leikmönnum Leicester en hann meiddist fyrir nokkrum vikum og missti af síðustu umferðum deildarinnar. Var hans klárlega sárt saknað en miðjumaðurinn var keyptur frá Norwich fyrir 20 milljónir árið 2018 og hefur verið eftirsóttur af Manchester United undanfarna mánuði.

Enn er þó mikil óvissa um framtíð Ben Chillwell, vinstri bakvarðarins, sem einnig missti af síðustu leikjum vegna meiðsla. Ensku götublöðin sögðu frá því í vikunni að hann vildi ólmur ganga til liðs við Chelsea en hann er samningsbundinn félaginu til 2024.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert