Fá reyndan miðvörð ódýrt

Joel Veltman (t.v.) í leik með Ajax fyrir nokkrum árum.
Joel Veltman (t.v.) í leik með Ajax fyrir nokkrum árum. AFP

Mánu­dag­inn 27. júlí var fé­laga­skipta­glugg­inn í ensku úr­vals­deild­inni í knatt­spyrnu opnaður og eru félögin strax byrjuð að bæta við sig leikmönnum fyrir næsta tímabil sem hefst í september. Brighton hefur nú staðfest kaup á reynslumikla miðverðinum Joel Veltman frá Ajax.

Veltman kemur til Englands fyrir um 900 þúsund pund sem þykir ekki ýkjahá upphæð þessa dagana. Hollendingurinn er 28 ára gamall og á að baki 22 landsleiki fyrir Holland. Hann getur bæði spilað sem miðvörður og hægri bakvörður. 

Hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við félagið en hann hefur til þessa alla sína tíð spilað fyrir uppeldisfélagið Ajax og 179 deildarleiki þar frá árinu 2012. Hann hefur valið að spila í treyju númer 34 til heiðurs Abdelhak Nouri, samherja hans sem féll í dá árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert