Jóhann Berg vonast til að meiðslavandræðin séu að baki

Jóhann Berg Guðmundsson í leik Burnley gegn Norwich.
Jóhann Berg Guðmundsson í leik Burnley gegn Norwich. AFP

Knattspyrnulandsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson vonast nú til að meiðslavandræðin séu að baki eftir að hann byrjaði tvo síðustu leiki Burnley í ensku úrvalsdeildinni.

Jóhann var í byrjunarliðinu og lagði upp mark gegn Norwich og var svo aftur í byrjunarliðinu í lokaumferðinni gegn Brighton. Þar áður hafði hann ekki byrjað leik í níu mánuði og komið lítið við sögu vegna þrálátra meiðsla.

„Venjulega, þegar þú meiðist illa, þá veistu hvenær þú kemur aftur; eftir fimm eða sex mánuði til dæmis,“ sagði Jóhann Berg í viðtali sem birtist á heimasíðu Burnley. „Hjá mér hafa þetta verið mikið af litlum vöðvameiðslum, ég hef komið til baka og svo meiðst aftur, þetta hefur verið erfitt.“

Hann segist hins vegar hafa lagt hart að sér til að ná sér að fullu og þá mun hann undirbúa sig vel í sumar fyrir næstu leiktíð sem hefst í september.

Ég vil bara njóta þess að spila fótbolta. Ég verð þrítugur í október og vil vera á vellinum eins mikið og hægt er, njóta þess að spila í úrvalsdeildinni, bestu deild í heimi að mínu mati. Ég vil njóta þess í nokkur ár í viðbót.“

mbl.is