Bikarinn gæti snúið honum til trúar

Pierre-Emerick Aubameyang. Hvar verður kappinn á næstu leiktíð?
Pierre-Emerick Aubameyang. Hvar verður kappinn á næstu leiktíð? AFP

Takist Arsenal að vinna ensku bikarkeppnina í knattspyrnu á Wembley á morgun gæti það verið nóg til að sannfæra fyrirliðann Pierre-Emerick Aubameyang um ágæti þess að vera áfram í Lundúnum og hjálpa liðinu til frekari afreka í framtíðinni.

Þetta sagði Mikel Arteta, stjóri liðsins, á blaðamannafundi sínum í dag en Arsenal mætir Chelsea í Lundúnaslag um enska bikarinn á morgun. Aubameyang er markahæsti leikmaður Arsenal en hann er orðinn 31 árs gamall og verður samningslaus á næstu leiktíð.

„Ef þú berð fyrirliðabandið og lyftir bikarnum þá byrjarðu að trúa,“ sagði Arteta og vísaði þar væntanlega til þess að fyrirliðinn myndi sannfærast um metnað og getu Arsenal til að njóta þeirrar velgengni sem hann þráir á síðustu árum ferilsins.

Arsenal endaði í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar og verður því að vinna bikarinn til að taka þátt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.

mbl.is